logo


Greinar
Almenningur í þrískiptingu valdsins Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Mánudagur, 30. Maí 2011 11:28

Um þrískiptingu valdsins hefur mikið verið rætt í gegnum tíðina og stundum er einnig getið um fjórða valdið sem fjölmiðlana og jafnvel fimmta valdið sem auðvaldið.  Í þessu samhengi er þó sjaldnast talað um vald almennings. Þessi málvenja er barn síns tíma en af henni má ætla að almenningur komi hvergi nærri, hafi ekkert vald, þegar nær sanni væri að segja að almenningur hefði öll völd.

 

Þegar ég tala um öll völd þá meina ég einnig það vald að framselja hluta valds síns til kjörinna fulltrúa.  Uppruni þess valds sem vanalega er talað um að sé þrískipt er, og á að vera, hjá almenningi.  Þess vegna á stjórnarskrá að vera undir beinni stjórn almennings. Í henni er öllum fjórum valdþáttnum lýst og mörk þeirra sett.

 

Ég vil leggja til að almenningur sé með formlegum hætti settur inn í mynd hins þrískipta valds.  Um leið væri eðlilegt að tala um valdið sem fjórskipt því hluta þess heldur almenningur ávalt hjá sér, svo sem kosningaréttinum og vonandi réttinum til að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslur og leggja fram þingmál á Alþingi eftir endurskoðun stjórnarskrárinnar.

 

Ég hef teiknað valdahring sem lýsir þingræðiskerfi eins og því sem ég fjalla um í fyrstu tillögum mínum til stjórnlagaráðsins, þar sem almenningur kemur inn á milli löggjafarvaldsins og dómsvaldsins.  Almenningur velur löggjafarvaldið og lýtur úrskurðum dómsvaldsins.

 

 

Það má fleira lesa út úr þessari mynd.  Almenningur hefur víðtækasta valdið og mest frelsi fyrir hugsjónir.  Eftir því sem lengra er farið eftir gangi klukkunnar um valdahringinn frá almenningi til dómsvaldsins er valdinu ætlað að vera sértækara og faglegra.

 

Almenningur eru allir einstaklingar, hvort sem þeir gegna embætti annars staðar í hringnum eður ei.  Almenningur hefur tillögu-, fyrirspurnar- og upplýsingarétt á öllum stigum hringsins, missterkan þó.  Almenningur velur fulltrúa til að fara með löggjafarvaldið (að svo miklu leyti sem almenningur gefur það frá sér).  Þeir fulltrúar túlka stefnuna sem almenningur velur í kosningum og tekur mið af henni við smíði lagafrumvarpa og í öðrum störfum sínum.  Löggjafarvaldið velur fulltrúa til að fara með framkvæmdavaldið.  Við smíði reglugerða og í öðrum störfum sínum túlkar framkvæmdavaldið einnig þá stefnu sem almenningur hefur valið, en innan þess ramma sem löggjafarvaldið setur með túlkun sinni.  Loks er það dómsvaldið sem skipað er af framkvæmdavaldinu. Til að tryggja enn frekar fagmennsku á því stigi er reyndar ástæða til að hafa það skipunarferli viðameira en svo að einn einstaklingur í sæti dómsmálaráðherra hafi skipunarvaldið einn.  Það er ekki beinlínis á sviði þeirrar stóru myndar sem hér er dregin upp. Dómsvaldið úrskurðar um hvort lögum og reglum sé fylgt.  Þó að dómsvaldið geti úrskurðað yfir öllum hinum valdþáttunum nægir að loka hringnum og láta það vísa á almenning því fulltrúar sem eru hluti af almenningi gegna jú öllum stöðum alls staðar í valdahringnum.

 

Tryggja þarf að samhengi sé milli almennrar stefnumótunar almennings og sértækrar framkvæmdar framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins.  Í þeim efnum hef ég lagt til visst fyrirkomulag þingræðis og kosninga sem sjá má hér og hér.

 
Þjóðaratkvæðagreiðslur og lýðræðislegt stjórnskipulag Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Mánudagur, 08. Nóvember 2010 20:04

Margir tala fyrir auknu vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í íslenskri stjórnskipun. Bundnar eru vonir við að þær geti skorið á hnúta og greitt úr ágreiningsmálum. Þó að mér finnist sjálfsagt að þjóðin ráði með beinum hætti yfir öllum þeim málum sem hún kýs að haga með þeim hætti, þá er ég efins um að þessi áhersla á þjóðaratkvæðagreiðslur muni standa undir væntingum. Ég vil flytja áhersluna í þessu máli meira yfir á aðkomu almennings að undirbúningi mála og að frumkvæðinu að framlagningu þeirra.

 

Hver leggur málin fram og hvað tryggir, eða býður upp á, raunverulegar umræður um þau? Ég legg til að almenningur undirbúi mál og leggi fyrir þing. Raunverulegar umræður myndast í því skapandi ferli sem þeim undirbúningi fylgir. Þröskuldurinn sem þarf að yfirstíga til að koma máli inn á þing og í gegnum þá skoðun sem þar fer fram virkar sem hvati til að vanda til verka. Vönduð undirbúningsvinna hlýtur svo að byggja á víðtækum umræðum og djúpri rýni. Hugveitunni er ætlað að verða vettvangur sem hentar fyrir slíka vinnu.

 

Að loknum vönduðum undirbúningi áhugasamra aðila vil ég að þing kjörinna fulltrúa með almennt umboð frá þjóðinni taki við málinu, fari vel ofan í saumana á því út frá almannahagsmunum og ríkjandi stjórnvaldsstefnu, og skeri úr um hvort það skuli ná framgangi eða ekki. Nái það ekki framgangi fylgir því rökstuðningur frá þinginu og það álit getur almenningur notað til að vinna málið áfram og leggja það aftur fyrir þingið síðar. Skapist vantraust milli stórs hluta almennings og þingsins tel ég möguleika á því að skera úr um mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og í því tilfelli er mikill kostur að undirbúningsferli sem þetta hafi farið fram. Helst vil ég þó sjá að til þess þurfi ekki að koma, þ.e.a.s. að svo vel takist til við að sníða þinginu umgjörð að það njóti trausts í hvívetna og standi undir því trausti.

Hvenær eiga þjóðaratkvæðagreiðslur best við?

Umgjörð þingsins getur enginn sett nema almenningur sjálfur. Almenningur verður að hafa bein yfirráð yfir stjórnskipulaginu þannig að því sé hægt að breyta komi í ljós að það sé ekki að virka sem skyldi. Það þarf að gera með þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem þörf krefur, og sú þjóðaratkvæðagreiðsla er hornsteinn lýðræðisins. Fyrir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu tel ég raunhæft að virkja stóran hluta almennings til að kynna sér málin og taka um þau upplýsta ákvörðun. Eftir því sem fleiri mál fara til þjóðaratkvæðagreiðslu tel ég hins vegar að meiri léttúð skapist í kringum þær, færri taki þátt og enn færri gefi sér tíma til að kynna sér hvert mál vandlega. Ég held þess vegna að þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar eru eigi að nýta til þess að skera úr um grundvallarmál eins og stjórnarskrá og stjórnskipunarlög en um sem fæst annað. Þannig missir tækið þjóðaratkvæðagreiðsla ekki tiltrú og vægi í þessum málum þar sem nauðsynlegt er að beita því og æskilegt er að fá sem víðtækasta þátttöku.

 

Meðan almenningur hefur full yfirráð yfir stjórnskipuninni er alltaf hægt að kippa fótunum undan kerfi sem ekki er að virka, setja upp nýtt eða sníða af því vankanta. Við gætum nýtt hvatann sem ágreiningsmál skapa til þess að byggja upp betra kerfi til framtíðar sem er eins lýðræðislegt og hugsast getur og ræður við stór og lítil ágreiningsmál án þess að fulltrúarnir fríi sig ábyrgð eða að almenningur fái útrás fyrir þau í þjóðaratkvæðagreiðslu - án þess endilega að leysa þau.

 

Til að leysa mál þarf gagnkvæm samskipti en ekki samansafn yfirlýsinga um afstöðu. Það þarf að vinna að lausn mála með aðkomu allra sem áhuga hafa, ekki úrtaks, ekki fulltrúa, heldur allra sem eitthvað vilja leggja af mörkum. Náist ekki lausn með þeim hætti má grípa til þess að höggva á hnúta með allsherjaratkvæðagreiðslum.

 

Lýðræðislegt kerfi þar sem meirihlutinn getur ekki kúgað minnihlutann og minnihlutinn getur ekki kúgað meirihlutann er flóknara en svo að það geti byggst á þjóðaratkvæðagreiðslum, nema sem varnagla og sem hornsteini sjálfs kerfisins. Ef við viljum hafa kerfið skilvirkt að auki og byggja á vel ígrunduðum ákvörðunum sem víðtæk samstaða næst um í samfélaginu verður verkefnið ennþá flóknara. Ég tel reyndar að Hugveitan eins og ég hef lýst henni, saman með þeim tillögum sem ég legg fyrir stjórnlagaþingið, sé einfaldur og traustur grunnur að slíku kerfi.

 

 
Ódýrara og betra stjórnlagaþing Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Fimmtudagur, 19. Mars 2009 01:23

Eftirfarandi grein birstist í Morgunblaðinu 5. apríl 2009:

 

"Það er tímabært að koma á stjórnlagaþingi, en ekki sama hvernig staðið er að því.  Frumvarpið sem liggur fyrir Alþingi nú gerir ekki ráð fyrir mikilli aðkomu almennings, aðeins hefðbundinni aðkomu kjósandans sem túlka á skoðun sína með krossi á blaði. Þetta er úreld nálgun og ekki til þess fallin að sátt verði um niðurstöðuna.   Virkja mætti allan almenning til markvissrar hugmyndavinnu og mótunar á nýrri stjórnarskrá með því að hagnýta tækni sem fyrir hendi er. Koma mætti upp stjórnlagaþingi á internetinu fyrir lítið brot af þeirri fjárhæð sem áætluð er í hugmyndir ríkisstjórnarinnar.  Sé rétt að því staðið má ná þeirri sátt sem stefnt skal að, öðruvísi ekki.

 

Kallað er eftir nýju lýðveldi eða í það minnsta gagngerum breytingum á núgildandi stjórnarskrá.  Kallað er eftir því að almenningur setji sér sjálfur nýjar grunnreglur fyrir samfélagið.  Þá er ekki aðalatriðið hversu frábrugðnar nýju reglurnar verða frá þeim gömlu heldur hitt að almenningur setji sér þær sjálfur.

 

Það er grundvallaratriði að þessari kröfu verði mætt.  Umgjörðin um stjórnun ríkisins, þessara samtaka sem við eigum öll aðild að, á ekki heima í höndum þeirra sem komist hafa til valda í ríkjandi kerfi hvers tíma.  Það á ekkert bara við núna heldur alltaf.  Það er beinlínis hættulegt að hafa hana í höndum ríkjandi valdhafa og getur leitt til óafturkræfrar einokunar á valdi.  Við getum spurt okkur hvort örli á slíku í núverandi kerfi.

 

Almenningi nægir ekki að stjórnkerfið líti út fyrir að vera lýðræðislegt og að flokkarnir setji upp lýðræðislegt bros fyrir kosningar. Almenningur á alltaf að hafa beina aðkomu að breytingum á stjórnarskrá og á að geta stofnað til þeirra að eigin frumkvæði og án þess að ríkjandi stjórnvöld geti staðið í vegi fyrir því með lögmætum hætti. Við búum ekki við lýðræði fyrr en því skilyrði er mætt.  Áhættan er engin því með einföldum hætti má tryggja að stjórnarskráin verði áfram sú kjölfesta sem henni er ætlað að vera og að vandað sé sérstaklega til verka við breytingar á henni. Tæknileg atriði geta tryggt þetta en ég held mig við grundvallaratriðin hér.

 

Tilraunir í rökræðulýðræði hafa sýnt að fái fólk að taka virkan þátt í ákvarðanaferli mótast skoðanir þess um viðkomandi mál. Þannig verður ríkari sátt um endanlega niðurstöðu heldur en ef kosið er beint milli ákveðinna valkosta.  Þessi áhrif ná til þeirra sem virkan þátt taka,  en síður til þeirra sem aðeins fá fregnir af niðurstöðunni og aðferðinni sem beitt var.  Það er í ferlinu sjálfu sem upplýsingar koma fram, rök mætast, skoðanir mótast og traust myndast.  Sáttin um stjórnarskrána verður því tæpast fengin með því að kjósa sérstaka fulltrúa beinni kosningu.  Sáttin fæst með því að allir sem vilja geti tekið þátt á jafnréttisgrundvelli. Að öðrum kosti förum við einnig á mis við hugmyndir og skarpskyggni fjölda áhugasamra og hæfileikaríkra einstaklinga.

 

Ég hef áður sett fram hugmyndir um hvernig opna megi almenningi leiðir til að vinna í sameiningu að málefnum samfélagsins á internetinu, þ.e.a.s. hvernig beina megi kröftum alls samfélagsins í brýn mál sem enda fyrir Alþingi sem frumvörp eða önnur þingmál.  Í anda þeirra hugmynda (sjá: http://www.hugveitan.is)  má útfæra stjórnlagaþing sem virkar. Rafrænt stjórnlagaþing sem er skilvirkt, sanngjarnt og öllum opið.

 

Það er komið að því að nýta mannauðinn og virkja almenning í hugmyndavinnu fyrir samfélagið.  Í því liggja tækifæri okkar til framtíðar."

 

 
Hugveitan í Krossgötum á Rás 1 Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Föstudagur, 13. Febrúar 2009 23:44

Á Laugardaginn fyrir viku  var rætt um Hugveituna í þættinum Krossgötur á Rás 1.  Umfjöllunin var á tveimur stöðum í þættinum og á þá hluta má hlusta hér að neðan.  Þáttinn í heild má hlusta á hlusta á hér og hala niður hér, en þar kemur margt annað áhugavert fram að vanda.

 

Fyrri hlutinn:

JavaScript is disabled!
To display this content, you need a JavaScript capable browser.

 

Seinni hlutinn:

JavaScript is disabled!
To display this content, you need a JavaScript capable browser.

 

 

 

 
« FyrstaFyrri12NæstaSíðasta »

Síða 1 af 2

Kynningarblað

 

Hvað er Hugveitan?

Kynningarblað um Hugveituna

 

Framvindan

Vísir að Hugveitunni er nú í vinnslu í formi hugbúnaður fyrir sveitarfélög, félagasamtök og stjórnmálaflokka. Sjá:

Efnisveita

 

feed-image RSS efnisveita

 


Hugveitan samfélagslausnir ehf. | Innovation House, Eiðistorgi 13-15, 170 Seltjarnarnesi | hugveitan (hjá) hugveitan.is | creatave commons, some rights reserved 2007

 

brunette teen xxx