Erindi til stjórnlaganefndar og stjórnlagaþings |
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson |
Föstudagur, 05. Nóvember 2010 21:14 |
Sem borgari á Íslandi vil ég leggja nokkrar tillögur sem hér fara á eftir fyrir stjórnlagaþing og stjórnlaganefnd. Tillögurnar vísa í og byggja á vandlega ígrunduðum hugmyndum sem meðal annars hafa birst í hjálagðri BA ritgerð minni í Heimspeki Hagfræði og Stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst frá árinu 2007 og á netinu á slóðinni http://www.hugveitan.is . Þetta er ekki hugsað sem forskrift heldur sem hugmyndir til að vinna með í tengslum við allt annað sem berst til nefndarinnar og þingsins. Í þessum hugmyndum vonast ég til að megi greina stef sem einkennist af því að almenningi séu veitt sem mest, skilvirkust og réttlátust tækifæri til þátttöku um leið og stuðlað er að því að útkoma kerfisins sem ný stjórnarskrá mun skilgreina verði sem farsælust fyrir allan almenning. Stjórnlagaþingsins bíður ekki létt verk vilji það vinna að þessu markmiði en ég vona sannarlega að það geri það og farnist vel í því.
Það er ein frumforsenda lýðræðis sem þarf undanbragðalaust að tryggja að sé til staðar og virt í lýðræðisríkjum. Þá forsendu hef ég orðað sem svo að lýðræði sé þá og því aðeins að almenningur geti „að eigin frumkvæði breytt sjálfu stjórnskipulaginu með friðsamlegri ákvörðunartöku." Óháð þessu geta stjórnkerfi verið lýðræðisleg, þ.e.a.s. haft ýmsa lýðræðislega eiginleika eins og til dæmis þingkosningar, án þess að þar sé á ferð það sem ég vil kalla lýðræði. Það sem þetta þýðir í raun er að tryggja þarf að almenningur hafi bein yfirráð yfir stjórnarskrá og geti að eigin frumkvæði lagt til og skorið úr um breytingar á henni. Hvort almenningur veitir sér bein yfirráð yfir einhverju af því sem skilgreint er í stjórnarskránni, svo sem stjórnskipunarlögum, fer svo eftir þeirri stjórnarskrá sem samstaða næst um.
Til að þessi réttur sé skýr og aðgengilegur, en að jafnframt ríki stöðugleiki um stjórnskipun landsins, má setja viss skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að ganga þurfi til þjóðaratkvæðagreiðslu um framlagða tillögu og til þess að tillaga geti talist samþykkt að henni lokinni. Þetta eru skilyrði sem stjórnlagaþingið getur ígrundað og komið með tillögu um, en ég hef nefnt sem dæmi að setja megi skilyrði um að a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna og a.m.k. 60-75% þeirra sem mæta á kjörstað þurfi að samþykkja breytingatillögu svo hún öðlist gildi. Breytingin gæti öðlast gildi strax eftir kosninguna eða samkvæmt þeim gildistökuákvæðum sem í tillögunni væru. Til að minnka áhrif dægurmála mætti síðan setja annað skilyrði um að breytinguna þurfi að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu að 2-6 árum liðnum. Þar sem það er nauðsynlegt gætu gildistökuákvæðin í breytingatillögunni tekið mið af því. Að ýmsu öðru er að hyggja varðandi þessi skilyrði en ég læt þetta duga að sinni.
Að koma þessari frumforsendu lýðræðis inn í stjórnarskrá er algerlega í hæsta forgangi í mínum huga. Ég vil jafnvel að sú leið verði íhuguð að eina formlega tillaga stjórnlagaþingsins til Alþingis verði útfærsla stjórnlagaþingsins á þessu atriði, og að allar aðrar niðurstöður stjórnlagaþingsins verði settar fram sem hjálögð gögn. Með því móti gæti Alþingi ekki sneitt hjá þessu ákvæði öðruvísi en að hafna öllum tillögum stjórnlagaþingsins. Ég tel vissa hættu á því að verði þetta ekki gert þá freistist Alþingi til þess að viðhalda þeim óeðlilegu tökum sem það hefur núna á stjórnarskránni. Umræður á Alþingi fyrir síðustu kosningar, um Alþingi sem stjórnarskrárgjafa, gefur skýr merki um að á það mun reyna. Verði í boði fyrir Alþingi að samþykkja margar aðrar góðar tillögur frá stjórnlagaþinginu mun því reynast auðveldara að hnika til svona ákvæðum og gera að engu. Ef það gerðist yrði það stór skaði fyrir almenning og viðhéldi þeirri áhættu sem felst í að valdhafinn á hverjum tíma hafi eitthvað með skilgreiningu valds síns að gera. Ef þessi frumforsenda lýðræðis fæst hins vegar samþykkt er almenningi í lófa lagið að leggja fram allar aðrar tillögur stjórnlagaþingsins og samþykkja þær í beinu framhald, auk þess sem sá réttur er tryggður til frambúðar. Það er því allt að vinna og engu að tapa að leggja þunga pressu á Alþingi að staðfesta þetta tiltekna ákvæði.
Þegar frumforsendu lýðræðis er mætt kemur að þeirri spurningu hvernig lýðræðisfyrirkomulag almenningur vill sakapa og hvað af því á að skilgreina í stjórnarskránni. Sem tillögu að lýðræðisfyrirkomulagi hef ég líst því sem ég kalla lýðræðissamfélag og er það fyrirkomulag þar sem mér sýnist lýðræðisþátturinn og samfélagsþátturinn hámarkaðir. Hámörkun lýðræðisþáttarins sé ég sem hámörkun á þeim tækifærum sem almenningi bjóðast í að koma með réttlátum og aðgengilegum hætti að yfirvegaðri ákvarðanatöku í málefnum samfélagsins. Með yfirvegaðri ákvarðanatöku á ég við ákveðið ferli rökræðu og málamiðlana þar sem mál eru gaumgæfð frá öllum hliðum og markmiðið er að ná sem víðtækastri samstöðu um þau á grunni þeirra upplýsinga sem hægt er að nálgast. Þetta viðhorf til lýðræðislegrar ákvarðanatöku er síðan veigamikill hluti í því að hámarka samfélagsþáttinn og tryggja heilsteypt samfélag þar sem öllum er gert jafn hátt undir höfði. Hvað það er fleira sem þarf til við að styrkja samfélagsþáttinn verður best fundið út með þeirri aðferð sem á undan er nefnd. Þegar almenningur hefur orðið aðgengilega og réttláta þátttökumöguleika til staðar er það verkefni hans að styrkja sitt samfélag í framhaldinu. Í hverju þessir þátttökumöguleikar felast skýrist betur í næstu köflum og má lesa um í fylgigögnum.
Hugmyndin um lýðræðissamfélagið snertir alla þætti hinnar hefðbundnu skiptingar samfélagsins upp í borgarasamfélag, atvinnulíf og hið pólitíska svið. Öll þessi svið sé ég fyrir mér í framtíð sem net lýðræðislegra eininga af ýmsum stærðum og gerðum. Um það mun ég þó ekki fjalla hér heldur halda mig við það sem aðallega tengist litlum hluta pólitíska sviðsins; stjórnskipuninni. Þar sem ég veit ekki fyrirfram hvar línan verður dregin milli stjórnarskrár og stjórnskipunarlaga mun ég nefna hluti sem ég tel ekki líkur á að verðir beinlínis settir í stjórnarskrá en eru partur af því að lýsa hugmyndinni með tiltölulega heildstæðum hætti.
Dagskrárvald almennings er í mínum huga mikilvægara en rétturinn til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki er svo að skilja að þessir hlutir séu gagnkvæmt útilokandi, en þeir eru nálgun á bein áhrif almennings úr tveimur ólíkum áttum. Rétturinn til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu er að vísu mjög mikilvægur neyðarhemill en það er mikill munur á því að geta komið beint að undirbúningi mála, mótað valkosti og lagt fram tillögur eða að geta aðeins krafist þess að fá að skera úr um mál sem aðrir hafa stillt upp. Þegar menn einblína á þjóðaratkvæðagreiðsluna hættir mönnum til að vanmeta þau miklu tækifæri til áhrifa sem almenningur getur haft með því að leggja til og undirbúa mál. Að lokinni vandaðri undirbúningsvinnu sem almenningur er virkur þátttakandi í tel ég að oftast sé lítil þörf fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál, nema þá hugsanlega sem neyðarúrræði. Til þess að skapa almenningi gott aðgengi að undirbúningsvinnunni þarf hins vegar að breyta verklagi á ýmsum stöðum og hagnýta upplýsingatæknina.
Ég legg til að almenningi verði tryggð réttindi til að leggja fram frumvörp, fyrirspurnir, skýrslur og þingsályktunartillögur á Alþingi, beint og milliliðalaust í krafti tiltekins fjölda og samstöðu. Nánari útfærslu á skilyrðum varðandi fjölda- og samstöðuviðmið má að svo stöddu setja í almenn lög, sérstaklega meðan reynsla fengist á hvar mörkin eiga að liggja. Varðandi mótun tillagna og öflun á samstöðu um mál vísa ég til ítarlegrar umfjöllunar í meðfylgjandi BA ritgerð þar sem sett er fram hugmynd að vefhugbúnaði sem gerir þennan kost bæði raunhæfan og fýsilegan.
Ég tel mikilvægt að þessi réttindi snúi beint að Alþingi en séu ekki útfærð með milligöngu bænaskrárnefndar eða einhvers slíks fyrirkomulags. Það er mikilvægt að fá fram afstöðu hvers þingmanns til þeirra mála sem ná fjölda- og samstöðuviðmiðunum, jafnvel þó einsýnt sé að þau verði feld. Í fyrsta lagi hefur þingheimur, og einstakir þingmenn, tækifæri til að álykta um hvað sé að málinu, en það getur nýst aðstandendum þess til að vinna málið áfram og kom því aftur fyrir þingið í breyttri mynd. Í öðru lagi þá nýtist það kjósendum að heyra afstöðu þingheims og einstakra þingmanna til mála, bæði til upplýsingar og til að mynda sér skoðun á frambjóðendum fyrir næstu þingkosningar.
Þó ég sé ekki fylgjandi að blanda bænaskrárnefnd inn í málið þá væri ekki óeðlilegt að mál sem almenningur leggur til og eru að nálgast að komast fyrir Alþingi gætu fengið ráðgefandi álit frá skrifstofu Alþingis. Þannig má til dæmis forðast óþarfa formgalla og ósamræmi við önnur lög. Sömu skrifstofu gætu alþingismenn haft aðgang að við sína vinnu við undirbúning mála og ákvarðana. Ég geri ráð fyrir að við þessar aðstæður væri samning frumvarpa og annarra þingmála búin að færast að mestu eða öllu leyti af hendi framkvæmdavaldsins yfir til löggjafans og almennings. Ráðuneytin ættu því að geta minnkað um leið og skrifstofa Alþingis yrði efld.
Þar sem ekki er trygging fyrir því að sá hópur sem nær að koma máli fyrir Alþingi endurspegli þverskurð þjóðarinnar mun Alþingi hafa ríku hlutverki að gegna vegna þess almenna umboðs sem það hlýtur frá þjóðinni við þingkosningar. Hlutverk þess gagnvart þeim málum sem almenningur leggur fyrir verður að gaumgæfa þau og skoða sérstaklega út frá almannahagsmunum og innra samræmis í lögum og í stjórnvaldsstefnu hvers tíma. Alþingi á að taka upplýsta málefnalega ákvörðun og rökstyðja hana.
Þingmenn skulu skila skriflegum rökstuðningi fyrir afstöðu sinni eða afstöðuleysi í öllum málum sem þeim er ætlað að skera úr um. Þetta má með mjög einföldum hætti gera á internetinu og er sjálfsagt að setja það sem skilyrði að hver þingmaður sendi inn persónulegan rökstuðning í beinu framhaldi af atkvæðagreiðslu, enda ætti hann á þeim tíma að hafa gert upp hug sinn og vera með efnisatriði málsins hvað mest á hreinu. Það kæmi sér mjög vel fyrir kjósendur að geta flett upp í svona gögnum til þess að meta störf þeirra og gera upp við sig hvort þeir styðji einstaka þingmenn til endurkjörs. Eftiráskýringar þingmannanna í kringum kosningabaráttu eru lakari heimild.
Mæti þingmaður ekki til atkvæðagreiðslu eða er hlutlaus ætti hann samt sem áður að lýsa afstöðu sinni til málsins eða gera grein fyrir hvað hindraði hann í að taka afstöðu. Persónulegur rökstuðningur á jafnt við um mál sem berast frá almenningi sem og um önnur mál.
Ég legg til að hætt verði með hefðbundnar flokkskosningar en í staðinn verði persónukjör milli einstaklinga sem bjóða sig fram í eign nafni út á eigin verðleika. Frambjóðendur þurfa ekki endilega að standa fyrir ákveðna stefnu í einstökum málum heldur geta þeir alveg eins staðið fyrir verklag, hæfileika eða persónueiginleika. Um stefnuna yrði kosið sérstaklega.
Við alþingiskosningar yrði kjörseðillinn tvískiptur þar sem annars vegar væri hægt að velja einstaklinga og hins vegar stefnuskrá. Þær stefnuskrár sem í boði væru gætu verið mótaðar af almenningi í aðdraganda kosninga. Á sérstöku vefsvæði gætu fjölmargar stefnuskrár verið í smíðum með mismunandi áherslum en á endanum væri markmiðið að ná sem mestri samstöðu um nokkra kosti til að setja á kjörseðilinn. Túlka mætti stefnuskrána sem hefði sigur að loknum kosningum sem nokkurs konar ályktun frá almenningi um það hvaða áherslur þingmenn skuli hafa í störfum sínum á næsta kjörtímabili. Í henni geta bæði verið víðtæk og sértæk ákvæði þó svo að flest þar verði líklega nokkuð almennt orðað eins og venja er.
Að loknum kosningum tekur þingheimur við stefnuskránni og vinnur að nánari útfærslum á ýmsu því sem þar stendur. Það er í raun verkefni alls kjörtímabilsins að gera það, en í upphafi þarf samt sem áður að skoða hana í heild og vinna úr henni ramma fyrir ríkisstjórnina til að vinna innan. Sá rammi er leiðbeining fyrir ríkisstjórnina og byggir á stefnunni sem almenningur valdi upphaflega. Með þessum hætti myndast rökrétt og fyrirsjáanlegt flæði stefnumála frá kosningum til einstakra stjórnvaldsákvarðana. Þetta er ólíkt því sem hefur verið þegar samsteypustjórnir eru myndaðar og engin leið er að vita hvaða flokkar taka saman eftir kosningar, hvaða málamiðlanir forystumenn hvaða flokks gera og hver niðurstaðan verður. Með þessu verður einnig auðveldara að meta hvenær vikið er frá stefnunni og veita þannig aðhald.
Ég geri ráð fyrir þingbundinni stjórn og legg til að hún verði í öllum tilfellum samþykkt sérstaklega af þingheimi en sitji ekki aðeins í skjóli þess að hljóta ekki formlegt vantraust þingsins. Ég legg til að forseti Íslands hlutist til um að mynda stjórnina að loknum alþingiskosningum og á öðrum tímum ef stjórn biðst lausnar eða missir traust þings með formlegum hætti. Sem leiðbeining fyrir forsetann við stjórnarmyndun gæti almenningur sett fram óskir sínar um fólk í ríkisstjórn og eða ákveðna ráðherrastóla á þar til gerðu vefsvæði. Þær óskir annars vegar og formlegar óskir frá þingheimi hins vegar gæti forseti nýtt til að leiða saman ríkisstjórn skipaða fólki sem tilbúið væri að vinna saman að þeirri stefnu sem landinu hefði verið sett af þingi og þjóð við alþingiskosningar.
Ég geri áfram ráð fyrir forsetanum sem sameiningartákni þjóðarinnar en ekki pólitískt kjörnum. Ég sé ekki leið til að tryggja að svo verði, en ég sé það sem mjög æskilegan hlekk í því kerfi sem ég lýsi. Þau atriði sem ég tel frekar stuðla að því að svo verði áfram eru að forseti geti ekki leyst stjórn frá völdum að eigin frumkvæði heldur hafi einungis formlegt umsjónarhlutverk með stjórnarmyndunum, og svo hitt að ríkisstjórnin sé áfram þingbundin og skuli vinna innan þeirrar stefnu sem valin er í alþingiskosningum. Einnig tel ég rétt að taka fram í stjórnarskrá að þannig sé hlutverk hans hugsað og að þannig falli hann inn í heildarmynd stjórnskipunarinnar.
Ef kosið er um ríkisstjórn sérstaklega, eða ef forseti getur leyst ríkisstjórn frá völdum eftir forsetakosningar á miðju kjörtímabili Alþingis, er hætta á að þessi skýra sýn á hvaða stjórnvaldsstefna á að ríkja í landinu tapist. Nær væri að hægt sé að boða til kosninga sem setja þinginu nýja stefnu á miðju kjörtímabili ef þörf krefur.
Ég hef hér nefnt stjórnarmyndun, forsetakjör og alþingiskosningar, en fjórði þátturinn í teikningunni að ofan snýr að dagskrárvaldi almennings, sem ég nefndi fyrr í þessu erindi. Þar geri ég ráð fyrir vefkerfi sem ég kalla Hugveitan og að með því verði sköpuð sú umgjörð sem gerir þátttökumöguleika almennings aðgengilega og réttláta. Þessi þáttur er sívirkur og tryggir almenningi þverpólitíska og djúpa aðkomu að stjórnun landsins, óháð stjórnmálaflokkum, jafnt og þétt allt kjörtímabilið en ekki aðeins rétt í kringum kosningar eins og verið hefur. Tryggja þarf að Alþingi beri að afgreiða mál sem komast inn til þingsins frá almenningi. Sá sem situr í forsæti Alþingis þarf að hafa það hlutverk með höndum að koma þeim málum á dagskrá og almennt séð að gæta hlutleysis í skipulagi þingsins. Hvort hægt er að fela forseta Íslands það hlutverk, eins og hugmyndir hafa verið uppi um, er vert að skoða en gæta þarf að því að færa forsetanum ekki slík völd að kjör hans þróist í að verða pólitískt kjör.
Fyrir því eru rök bæði með og á móti að skipta landinu upp í kjördæmi. Ég ætla ekki að ræða þau sérstaklega hér heldur nefna leið sem er blanda af hvoru tveggja. Sú leið sem ég vil nefna byggir á persónukjöri í anda þess sem lýst var í síðasta kafla. Hún gengur út á að frambjóðendur bjóði sig fram á landsvísu en að við talningu verði að hluta tekið tillit til kjördæma. Sem dæmi gæti fyrsti þriðjungur þingmanna komist inn sem efstu menn á landsvísu, næsti þriðjungur yrði efstu menn samkvæmt talningu í kjördæmum og síðasti þriðjungurinn yrði svo aftur efstu menn á landsvísu. Eins má hugsa sér að tveir þriðju hlutar þingmanna yrðu teknir inn á landsvísu í upphafi og síðasti þriðjungurinn samkvæmt talningu í kjördæmum, allt eftir því hversu þungt menn vilja að kjördæmaskiptingin vegi á móti jöfnu atkvæðavægi. Hlutfall kjördæmakjörinna getur einnig verið hærra eða lægra, eftir því sem sanngjarnast þykir.
Með hliðsjón af frumforsendu lýðræðis sem ég ræddi í upphafi yrði að samþykkja þessa leið í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem allir kjörgengir íslendingar hafa jafnt atkvæðavægi - í kosningu um stjórnarskrá. Að því marki sem þessi leið veldur misvægi atkvæða yrði það réttlætt með þeim hætti. Misvægið þarf því að byggja á málefnalegum forsendum og vera samþykkt jafnt af höfuðborgarbúum og landsbyggðarfólki.
Tilgangurinn með þessari leið er að opna greiðari aðgang inn á þing fyrir fólk sem er þekkt af störfum sínum og framkomu í sínu nærsamfélagi en er minna þekkt á landsvísu. Á hinn boginn er möguleiki á að upp komi sú sérkennilega staða að kjördæmakjörnu þingmennirnir tengist ekki með neinum augljósum hætti kjördæminu sem kom þeim inn. Sem dæmi gætu austfirðingar valið vestfirðing sem kjördæmakjörinn og öfugt. Það er hins vegar ekkert slæmt við þá útkomu, heldur þvert á móti er það bara til merkis um vilja fólksins á því landsvæði sem á í hlut. Þannig er tekið mið af óskum fólks innan kjördæma en ekki þröngvað upp á það kjördæmabundnu vali eins og ef frambjóðendur bjóða sig fram í ákveðnum kjördæmum. Réttlæting kjördæmaskiptingarinnar hlýtur að ganga út á að kjósendur mismunandi kjördæma hafi mismunandi hagsmuni eða mismunandi sýn á málefni þjóðarinnar og því ástæðu laust að hefta valmöguleika þeirra með því að binda þá kjördæminu.
Verði þessi leið farin legg ég til að kjördæmin séu ekki höfð of lítil svo að hvert kjördæmi hafi að minnsta kosti þrjá þingmenn. Hugsunin með því er að kerfið hafi sem minnst skoðanamyndandi áhrif á kosninguna. Slík áhrif gætu til dæmis verið á þann veg að kjósendur freistuðust til þess að nýta atkvæði sitt frekar til að taka afstöðu til keppni milli einstakra hátt skrifaðra framboða heldur en að velja þá sem þeim líst best á af öllum frambjóðendum.
Stundum er rætt um að fækka þingmönnum en jafnframt að þeir geti ráðið sér aðstoðarmenn. Einnig virðist það oft vandamál fyrir þingið að komast í gegnum vandaða yfirferð á öllum þeim málum sem lögð eru fyrir það. Ef hver og einn þingmaður á að kynna sér öll mál og taka til þeirra ígrundaða afstöðu hefur fjöldi þingmanna ekki áhrif á hversu mörg mál þingið kemst yfir að sinna. Ef þingmenn hópa sig saman í þingflokkum og skipta málum á milli sín getur það haft áhrif, en þá er alltaf hluti þingmanna að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu einhvers annars sem hann treystir. Á endanum fer þetta að snúast um þingstyrk flokka á kostnað þess að hver þingmaður taki sjálfstæða upplýsta ákvörðun.
Hægt er að sjá fyrir sér annað verkalag í kerfi þar sem þingmenn sitja á Alþingi á eigin forsendum og hafa það verkefni að útfæra, samkvæmt bestu samvisku, þá stefnu sem almenningur valdi sérstaklega í sömu kosningum. Í stað þess að fækka þingmönnum og varpa ábyrgð yfir á aðstoðarmenn þeirra mætti skipta þinginu upp í þrjá jafn stóra og jafn réttháa hópa sem hver um sig gæti afgreitt mál endanlega í krafti algerrar eða mjög víðtækrar samstöðu. Ef útilokað er að ná samstöðu innan hópsins færi málið til sameinaðs þings og skorið úr um það þar.
Viss mál eins og fjárlög færu alltaf beint til sameinaðs þings. Í öðrum málum gætu þingmenn einnig kallað eftir því samkvæmt vissum reglum. Því fleiri mál sem ekki leysast með samstöðu eða kallað er eftir af öðrum ástæðum að fari fyrir sameinað þing, því meira vinnuálag verður á öllum þingmönnum sem rækja starf sitt af heilindum. Þetta skapar því hvata til þess að leysa mál með þeim hætti að sem flestir geti vel við unað frekar en að þau séu leyst með meirihlutamyndunum.
Handahófsval í upphafi hvers þings mundi ráða hvaða þingmenn lentu í hvaða hópi og handahófsval réði einnig hvaða þingmál lenti hjá hverjum hópi. Komi upp skipting sem hefur einhverja sýnilega vankanta getur einhver viss minnihluti þingheims farið fram á að nýtt handahófsval fari fram áður en þingstörf hefjast.
Nefndastörf má vinna þvert á þessa hópa. Leysist öll mál með samstöðu þarf hver þingmaður aðeins að kynna sér, og bera ábyrgð á, þeim málum sem lenda hjá þinghópnum hans og hjá nefndunum sem hann starfar innan.
Því minni samstaða sem næst á Alþingi því meira vinnuálag verður á hverjum þingmanni. Sú tilhneiging ætti að stuðla að því að betur sé tekið tillit til allra sjónarmiða sem uppi eru um hvert mál og að meiri virðing verði borin fyrir minnihlutasjónarmiðum. Í þeim tilfellum þar sem skjótra úrlausna er þörf má beita meirihlutaræðinu í sameinuðu þingi til að höggva á hnúta en það ætti að vera undantekning fremur en venja. Alþingi á að snúast um sameiginlega stjórn alls almennings á málefnum samfélagsins en ekki keppni einhverra hópa innan samfélagsins um að hafa vinninginn.
Hér hef ég nefnt þau helstu atriði sem ég vil koma á framfæri við stjórnlaganefnd og stjórnlagaþing að svo stöddu. Nánar má lesa um sum atriðin í fylgigögnum auk þess sem ég er til viðtals við þá sem áhuga hafa.
Reykjavík, 5. nóvember 2010, Guðmundur Ágúst Sæmundsson
Listi yfir fylgigögn:
|
Framvindan
Vísir að Hugveitunni er nú í vinnslu í formi hugbúnaður fyrir sveitarfélög, félagasamtök og stjórnmálaflokka. Sjá:
Hugveitan samfélagslausnir ehf. | Innovation House, Eiðistorgi 13-15, 170 Seltjarnarnesi | hugveitan (hjá) hugveitan.is | 2007