Þingmál að frumkvæði kjósenda og stjórnarskrárbreytingar Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Miðvikudagur, 20. Júlí 2011 19:34

 

Eftirfarandi komst ekki í tæka tíð inn í erindakerfi Stjórnlagaráðs, en er birt hér engu að síður:

 

(Sjá neðst: uppfærsla í ljósi nýrra upplýsinga)

 

Ekkert er sjálfsagðara en að kjósendur leggi frumvarp fyrir Alþingi. Þau gætu jafnvel verið mörg á hverju þingi. En mér finnst líka sjálfsagt að Alþingi hafni þeim í einhverjum tilfellum, eftir einlæga skoðun, og það við fyrstu umræðu ef því er að skipta. Höfnun þarf alls ekki að leiða sjálfkrafa til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þó það gæti leitt til hennar ef visst hlutfall kjósenda færi fram á það. Það er sín hvor ákvörðunin að vilja að frumvarp sé lagt fyrir Alþingi og að vilja að frumvarp fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Í þeirri umgjörð sem 64. greinin á að skapa er tækifæri til að koma á virku samtali milli þings og þjóðar um einstök málefni. Það á að vera á forsendum samræðu en ekki átaka. Það er mín tilfinning að núverandi tillögur reikni með átökum og stuðli um leið að því að þannig verði það.

 

Vantraust á Alþingi, og vinnubrögðunum þar, er vissulega mikið um þessar mundir en það er full ástæða til að gera ráð fyrir að það lagist. Sem dæmi verða möguleikar á að velja fulltrúa á Alþingi í persónukjöri auknir samkvæmt frumvarpsdrögunum Stjórnlagaráðs. Það er þess vegna minni ástæða til að ætla að til átaka milli þings og þjóðar þurfi að koma í framtíðinni og eðlilegt að hanna þátttökumöguleika almennings með hliðsjón af því markmið að samstarfið verði náið og gott.

 

Alþingi hefur ákveðnu þjónustuhlutverki að gegna fyrir almenning. Það hefur það hlutverk að skoða öll mál ofan í kjölinn og gaumgæfa þau út frá almannahagsmunum. Til þess hefur það almennt umboð frá kjósendum. Eitthvert visst hlutfall kjósenda, sem styður að ákveðið mál sé lagt fram, hefur ekki þetta almenna umboð. Sá hópur kjósenda á hins vegar að hafa rétt til þess að mál sem þeim þykja brýn séu tekin til afgreiðslu af Alþingi – þeim hópi manna sem þjóðin öll hefur valið til þess verkefnis og hefur verið séð fyrir starfsaðstæðum til að sinna því. Sá réttur er inni samkvæmt drögunum og er það vel, en verkferlið mætti betra og opnara.

 

Ef að það ætti sjálfkrafa að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í hvert skipti sem hópurinn með almenna umboðið er ósammála kröfuhópnum þá er verið að gera ferlið alltof þunglamalegt, dýrt og fráhrindandi. Þá er einnig verið að skekkja valkostina sem þingmenn standa frammi fyrir og gera þeim erfiðara að taka hreina málefnalega afstöðu samkvæmt eigin samvisku, vegna fyrirsjáanlegrar fyrirhafnar og kostnaðar við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Til viðbótar má svo að gefnu tilefni nefna að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla heitir öðru nafni skoðanakönnun og hana mætti fá t.d. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að framkvæma með mun ódýrari hætti. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er með öðrum orðum eitthvað sem ég sé ekki að hafi teljandi kosti umfram aðrar leiðir í neinum tilfellum, nema helst til lýðskrums. Aukið og einfaldara samtal milli almennings og ríkisvaldsins væri hins vegar til mikilla bóta og vert að stefna staðfastlega að. Í því samhengi minni ég á fyrsta erindið mitt, Leið að eflingu lýðræðissamfélags.

 

Eftirfarandi er tillaga að því hvernig 64. greinin gæti staðið í stjórnarskránni (tímalengdar- og hlutfallstölur eru settar innan hornklofa og hafðar í sem mestu samræmi við frumvarpsdrögin þar sem þær eru ekki aðalatriði þessarar tillögu minnar.):

 

 

"64. grein. Þingmál að frumkvæði kjósenda


Visst hlutfall kjósenda, ekki hærra en [tveir] af hundraði, getur lagt fram þingmál á Alþingi.


Visst hlutfall kjósenda, ekki hærra en [fimmtán] af hundraði, getur lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Atkvæðagreiðsla um frumvarpið skal fara fram innan [tveggja] ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi. Synji Alþingi frumvarpinu skal fylgja því rökstuðningur.


Nú leggja kjósendur sama frumvarp, með síðari tíma breytingum, fyrir Alþingi [öðru] sinni. Synji Alþingi því enn geta [fimmtán] af hundraði kjósenda krafist þess að frumvarpið sé borið undir þjóðaratkvæði til samþykkis eða synjunar. Alþingi getur þá lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Gagntillagan skal fram komin innan [fjögurra] vikna frá því þjóðaratkvæðagreiðslunnar var krafist og eru þá bæði frumvörpin borin samtímis undir þjóðaratkvæði. Séu bæði frumvörpin samþykkt skal það frumvarp taka gildi sem fleiri atkvæði hlýtur. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal haldin innan [þriggja] mánaða frá því krafa um hana kemur fram."

 

 

Þetta felur í sér að almenningur og Alþingi geta sent frumvörp endurtekið á milli sín en frá og með [öðru] sinni sem sama frumvarp er tekið fyrir má krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Þá er í það minnsta búið að láta reyna á samtalið og Alþingi jafnvel búið að samþykkja eitthvað úr upphaflegum tillögum. Ef enn er djúpstæður ágreiningur til staðar verður hann e.t.v. ekki leystur nema með þjóðaratkvæðagreiðslu og þá geta þeir sem telja þann kost vænstan krafist þess.

 

Alþingi þarf að rökstyðja synjun. Það er lykilatriði. Það nýtist sem leiðbeining fyrir þann hóp sem lagði frumvarpið fram og vill mögulega undirbúa framlagningu þess aftur ef rökstuðningurinn sannfærir hann ekki. Rökstuðningurinn er einnig upplýsandi fyrir alla kjósendur um hvernig Alþingi bregst við tillögum frá almenningi.

 

Í umræddri grein frumvarpsdraganna tel ég rétt að gefa löggjafanum svigrúm til að ákveða fjöldaviðmið fyrir framlagningu mála, en gera jafnframt ráð fyrir að heimildin verði fullnýtt í upphafi. Það á eftir að koma reynsla á þetta ferli hér á landi. Ef hömlurnar eru of miklar þá kemur engin nytsamleg reynsla á þetta og ákvæðið verður dauður bókstafur. Ef hömlurnar eru of litlar er vandamálið mun viðráðanlegra því að það er frekar lítið fyrir því haft að hafna hverju málinu á fætur öðru í fyrstu umræðu á Alþingi ef í óefni er komið að mati Alþingismannanna – þó að sú ákvörðun geti auðvitað haft afleiðingar fyrir þingmenn sé hún tekin að nauðsynjalausu. Það er með örðum orðum ekkert að óttast og ég hef fulla trú á að Alþingi muni í framtíðinni vilja fínpússa þetta kerfi. Það væri óþarfi að hafa svo litla trú á samstarfsvilja Alþingis að þessu sé stillt þannig upp í stjórnarskránni að allar slíkar tilraunir þyrftu að gerast með stjórnarskrárbreytingum. Það væri í það minnsta í hróplegu ósamræmi við þá ofurtrú á Alþingi sem 111. greinin ber með sér núna, en hún er reyndar ekki aðeins óþarfi heldur óráðleg eins og ég hef áður skrifað um áður. Eftir einhver ár, eða áratugi, má skoða að festa þessi viðmið í ljósi þeirrar reynslu sem þá hefur safnast en það er ótímabært að svo stöddu.

 

Að lokum vil ég vísa til erindis sem ég sendi inn föstudaginn 15. júlí, um breytingar á stjórnarskrá. Sterk staða Alþingis í því ferli sem ég legg til hér byggir á því að almenningur geti alltaf breytt stjórnarskránni án skilyrðis um samþykki Alþingis. Við almenningur getum sett okkur verklag og ákveðnar hömlur í því skyni að kalla fram það besta í okkur sjálfum. Ríkisvaldið og þrískiptingu þess má í ákveðnu ljósi sjá sem tvö dæmi um slíkt. Það sem við megum aldrei gera er að loka fyrir breytingar í framtíðinni ef það skipulag sem við ákveðum á hverjum tíma stendur ekki undir væntingum. Þess vegna geri ég mikinn greinarmun á breytingum á stjórnarskrá annars vegar og framþróun lagasafnsins hins vegar. Bein yfirráð almennings yfir stjórnarskrá er frumforsenda þess að við getum kallað okkur lýðræðisríki með réttu. Aftur á móti eru bein yfirráð almennings yfir lagasafninu bara útfærsluatriði sem við komum okkur saman um sem borgarar í lýðræðisríki.

 

 

Uppfærsla í ljósi nýrra upplýsinga (21. júlí 2011):

Eftir að hafa rætt við fulltrúa úr ráðinu sé ég að ein forsendan sem erindið mitt gengur út frá er röng.  Ég skyldi það svo að í tillögu ráðsins væru frumvörp ekki talin til þingmála og því væri alltaf 15% þröskuldur fyrir að leggja fram frumvörp þó að hann væri aðeins 2% fyrir önnur þingmál.  Ég misskildi þetta með þessum hætti þó að ég tali reyndar alltaf um "frumvörp og önnur þingmál" hér á síðunni. Í ljósi þessa skil ég ferlið þannig núna að frumvarp komist inn til afgreiðslu þings með aðeins 2% stuðningi en fái það hins vegar 15% gangi það til þjóðaratkvæðagreiðslu ef þingið hafnar því.

 

Þetta er líkara því sem ég legg til í erindinu, en samt ekki nógu gott.  Krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu á að vera sér krafa, enda þarf þá aldrei að draga neitt til baka sem krafist er.  Það væri líka einkennilegt, eins og þetta virkar, að krafa sem maður styður breytist í kröfu um eitthvað annað og meira – sem maður styður ekkert endilega líka – ef fleiri fylgja henni.  Þetta ferli þarf því að vera heilsteyptara.

 

Á ráðsfundi í morgun kom upp nokkuð greinilegur ágreiningur eftir að samþykkt var að þjóðaratkvæðagreiðslur, samkvæmt 64. grein um þjóðarfrumkvæði, skyldu alltaf vera bindandi.  Í því ljósi má gera ákveðna sáttaleið úr tillögu minni að ég tel.  Það er sú leið að ekki sé hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr en sama frumvarp hefur náð inn á þing, og verið hafnað þar, oftar en einu sinni.  Þessi þröskuldur gæti jafnvel verið 3 eða 4 skipti þegar þröskuldurinn til að leggja frumvörp fram er ekki nema 2%.  Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti svo sama stuðning og krafan um málskot í 63. grein.  Þetta ferli væri þá orðið meira til samræmis við málskotsrétt þjóðarinnar þar sem spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu vaknar ekki fyrr en þingið hefur tekið sína ákvörðun.

 

Reyndar er þessi leið sem ég legg hér til ekki aðeins sáttaleið að mínu mati heldur skýrari leið og einnig aðferð til að koma á gagnkvæmni milli þings og þjóðar eins og ég legg áherslu á í erindinu. Greinin gæti þá litið svona út:

 

"64. grein. Þingmál að frumkvæði kjósenda


Visst hlutfall kjósenda, ekki hærra en [tveir] af hundraði, getur lagt fram þingmál á Alþingi. Atkvæðagreiðsla um þingmálið skal fara fram innan [eins árs] frá því málið hefur verið afhent Alþingi. Synji Alþingi málinu skal fylgja því rökstuðningur.


Nú leggja kjósendur sama frumvarp, með síðari tíma breytingum, fyrir Alþingi [þriðja] sinni.  Synji Alþingi því enn geta [tíu/fimmtán] af hundraði kjósenda krafist þess að frumvarpið sé borið undir þjóðaratkvæði til samþykkis eða synjunar. Alþingi getur þá lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps.  Gagntillagan skal fram komin innan [fjögurra] vikna frá því þjóðaratkvæðagreiðslunnar var krafist og eru þá bæði frumvörpin borin samtímis undir þjóðaratkvæði.  Séu bæði frumvörpin samþykkt skal það frumvarp taka gildi sem fleiri atkvæði hlýtur. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal haldin innan [þriggja] mánaða frá því krafa um hana kemur fram."

 

 

 

Síðast uppfært Fimmtudagur, 21. Júlí 2011 17:16