Formáli - Athugasemdir í ljósi þjóðfélagsbreytinga Prenta út
Skrifað af Guðmundur Ágúst Sæmundsson   
Föstudagur, 23. Janúar 2009 17:14

Ég útbjó nýjan formála á rafrænu útgáfuna af ritgerðinni, en hana er nú orðið hægt að hala niður hér til hliðar.  Formálinn er eftirfarandi:

 

"Á Austurvelli er öskrað „Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn!“  Sófaþreyttir Íslendingar sem sjaldan láta á neinu bera þramma nú niður í bæ sem aldrei fyrr og reyna að túlka, hver með sínum hætti, þá gremju og óvissu sem fengið hefur fleiri og fleiri til að gæla við áður óhugsandi hugmynd: byltingu!

 

Öðruvísi mér áður brá.

 

Sumarið 2007 þegar ég lagði lokahönd á þessa ritgerð var fátt sem benti til annars en að þær hugmyndir sem hér eru settar fram kæmust seint og illa í framkvæmd – ef nokkurn tíma.  Það var þá.  Nú er ég fullviss um að grundvöllur hafi skapast fyrir að þetta geti, í öllum meginatriðum, orðið að veruleika.

 

Ritgerðin var skrifuð með hliðsjón af því ástandi sem var.  Á þeim tíma lagði ég mikla áherslu á að lítið þyrfti að hrófla við kerfinu sem fyrir er. Meginframlag ritgerðarinnar er því sett fram sem hrein viðbót við það og litið á allar frekari breytingar á stjórnskipun og kosningakerfi sem sjálfstæðar ákvarðanir og lítið um þær fjallað.  Sá eiginleiki að geta tekið hugbúnaðinn sem hér er lýst í notkun án frekari breytinga er ennþá fullgildur en andinn í þjóðfélaginu virðist mér vera orðinn sá að hægt sé að gera sér vonir um mun róttækari breytingar á skemmri tíma en áður.  Slíkar breytingar sé ég fyrir mér að hugbúnaðurinn styðji vel við bakið á og fjölgi einnig þeim möguleikum sem hægt er að hugsa sér í því sambandi.  Dæmi um breytingar sem hugbúnaðurinn mundi auðvelda útfærslu á gætu til að mynda verið (1) persónukosningar, (2) endurskoðun á stjórnarskrá og (3) að mótaður verði rammasáttmáli af almenningi sem síðan yrði grunnurinn að stefnu þingstarfa og stjórnarsáttmála ríkisstjórnar á hverjum tíma, m.ö.o. að kosið verði um stefnu annars vegar og fulltrúa hins vegar líkt og gerist innan flokka í prófkjörum og á flokksþingum.  Fleira en þetta mætti nefna því möguleikarnir eru margir.

 

Lykilatriðið í þessu öllu er að með hugbúnaðinum yrði almenningi gert kleift að koma að stjórn landsins með þýðingamiklum, markvissum og skilvirkum hætti, allan sólarhringinn, allan ársins hring.  Ekkert er undanskilið, ekki einu sinni breytingar á hugbúnaðinum sjálfum. Hann mun þróast áfram eftir því sem reynsla af honum eykst og það mun gerast eftir ábendingum frá notendum og með vinnuframlagi þeirra sem hafa áhuga og kunnáttu til verka.

 

Þegar öllu er á botninn hvolft er hér að finna hugmynd sem fyrst og fremst er ætlað að ryðja öðrum hugmyndum braut.

 

Það úrræði eitt að öskra á Austurvelli er rýrt hlutskipti fyrir almenning.  Það er myndbirting gremju og úrræðaleysis sem stafar af því að þátttökuleiðir almennings í íslenskum stjórnmálum eru, og hafa verið, órökréttar og varðaðar óþarfa hindrunum.  Á skömmum tíma má ráða bót á þessu og veita þeim krafti sem býr í þjóðinni inn á uppbyggilegri brautir.  Það er gert með því að ráðast í smíði Hugveitunnar – hugbúnaðarins sem lýst er í þessari ritgerð – og innleiða hana í íslenska stjórnskipun.

 

22. janúar 2009
Guðmundur Ágúst Sæmundsson"